Fótbolti

Guardiola: Það kemur eiginlega enginn í staðinn fyrir Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Lionel Messi.
Pep Guardiola og Lionel Messi. Mynd/AFP
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, fór ekkert í felur með mikilvægi Argentínumannsins Lionel Messi á blaðamannafundi fyrir leik Barcelona á móti Sporting Gijon á morgun. Messi meiddist illa á ökkla um síðustu helgi og verður frá í næstu leikjum.

Lionel Messi hefur skorað 7 mörk í fyrstu 6 leikjum Barcelona á þessu tímabili og en hann skoraði samtals 85 mörk í 104 leikjum á síðustu tveimur tímabilum.

„Messi hefur einstaka hæfileika og það kemur eiginlega enginn í staðinn fyrir hann. Við munum þó reyna að halda áfram án hans og sem betur fer verður hann aðeins frá í stuttan tíma," sagði Pep Guardiola.

Lionel Messi mun örugglega missa af leiknum á móti Sporting Gijon á morgun sem og leiknum á móti Athletic Bilbao á laugardaginn. Hann er líka tæpur fyrir leikinn á móti Rubin Kazan í Meistaradeildinni sem fer fram 29. september næstkomandi.

Guardiola ætlar að gefa Messi tíma til að ná sér góðum af meiðslunum og mun passa að taka hann ekki inn of snemma. „Ég veit ekki hvort hann verði orðinn góður fyrir Rubin Kaza leikinn. Hann mun hvíla þar til að hann orðinn heill," sagði Guardiola.

Tékkinn Tomas Ujfalusi hjá Atletico Madrid sem sparkaði Messi svona illa niður og fékk rauða spjaldið fyrir, hefur beðist opinberlega afsökunar á broti sínu.

„Ég er ekki grófur leikmaður. Ég fer á fullu í allar tæklingar en reyni alltaf við boltann. Það eru harðari tæklingar í gangi en þessi en vandamálið er að ég tæklaði Messi," sagði Tomas Ujfalusi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×