Körfubolti

Versta taphrina Detroit Pistons í fjórtán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allen Iverson hefur ekki haft góð áhrif á Detroit-liðið.
Allen Iverson hefur ekki haft góð áhrif á Detroit-liðið. Mynd/GettyImages

Detroit Pistons tapaði áttunda leiknum í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar liðið lá með þremur stigum á útivelli á móti New Orleans Hornets, 87-90. Með sama áframhaldi kemst Detroit varla inn í úrslitakeppnina en eins og staðan er núna er liðið þó enn inni.

Tapið var ekki eina slæma fréttin fyrir Pistons-menn þetta kvöld, því Allen Iverson yfirgaf völlinn meiddur strax í fyrsta leikhluta og Rasheed Wallace var rekinn út úr húsi fyrir að fá tvær tæknivillur með 26 sekúndna millibili í fjórða leikhlutanum.

Wallace er þar með kominn með sextán tæknivillur á tímabilinu sem kostar hann bann í næsta leik sem verður á móti Orlando á föstudag. Staðan á Iverson er óljós og liðið gæti því verið án beggja þessara lykilmanna í næsta leik.

Detroit tapaði síðast átta leikjum í röð frá 21. desember 1994 til 8. janúar 1995 en það tímabil vann liðið aðeins 28 af 82 leikjum sínum.

Detroit-liðið hefur unnuð 27 af 56 leikjum sínum á þessu tímabili og er einum sigri á undan Milwaukee sem er síðasta liðið inn í úrslitakeppnina austan megin. Chicago Bulls er síðan í 9. sæti tveimur sigrum á eftir Pistons.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×