Körfubolti

Saunders tekur við Wizards

Nordic Photos/Getty Images

Flip Saunders hefur náð samkomulagi við forráðamenn Washington Wizards NBA deildinni um að gerast þjálfari liðsins á næstu leiktíð. Þetta kemur fram í nokkrum fjölmiðlum vestra í dag.

Það er Ed Tapscott sem hefur séð um að þjálfa Washington síðan Eddie Jordan var rekinn fyrr í vetur, en félagið er nú að fá reyndan þjálfara til að taka við.

Saunders er með sjöunda hæsta vinningshlutfall þjálfara sem hafa þjálfað yfir 900 leiki í sögu NBA. Hann á að baki 587 sigra og 396 töp, sem gerir rétt tæplega 60% vinningshlutfall.

Saunders hefur stýrt Minnesota og Detroit og hefur ellefu sinnum leitt lið sitt í úrslitakeppnina. Hann fór þrjú ár í röð í úrslit Austurdeildar með lið Detroit, en var rekinn þaðan í fyrrasumar.

Deildarkeppninni í NBA lýkur annað kvöld og búist er við því að Washington muni tilkynna ráðningu Saunders. Sagt er að hann muni fá 2,4 milljarða í laun fyrir fjögurra ára samning.

Washington Post heldur því fram að Sam Cassell verði aðstoðarmaður Saunders hjá Washington.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×