Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andrew Bynum átti góðan leik fyrir Lakers í nótt.
Andrew Bynum átti góðan leik fyrir Lakers í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Tvö bestu liðin í vestrinu í NBA-deildinni mættust í nótt og fór LA Lakers þar með sigur af hólmi gegn San Antonio Spurs, 99-85.

Sigur Lakers var nokkuð öruggur enda munar talsverðu á árangri liðanna á tímabilinu til þessa. Lakers er með besta sigurhlutfallið í deildinni allri (81,4%) en San Antonio er talsvert á eftir (67,4%).

Kobe Bryant var með 22 stig en hann fékk að hvíla allan fjórða leikhlutann. Trevor Ariza var með sautján stig Pau Gasol með sextán. Gasol var reyndar eini byrjunarliðsmaðurinn hjá Lakers sem kom við sögu í fjórða leikhluta.

Þetta var fjórði sigur Lakers í röð og sá fjórtándi af síðustu sautján hjá liðinu.

Boston vann Dallas, 124-100, þar sem Ray Allen skoraði 23 stig, þar af 20 í fyrri hálfleik er Boston náði mest 27 stiga forystu. Eddie House setti niður sjö þrista í leiknum fyrir Boston.

Phoenix vann Atlanta, 104-99. Amare Stoudemire skoraði 23 stig og Shaquille O'Neal nítján og ellefu fráköst. Steve Nash var með fjórtán stig og þrettán stoðsendingar en það voru hann og Stoudemire sem kláruðu leikinn fyrir Phoenix í nótt.

Toronto vann Sacramento, 113-97. Chris Bosh var með 31 stig, Andrea Bargnani 24. Þetta var fimmta tap Sacramento í röð.

Houston vann Detroit, 108-105. Ron Artest var með 24 stig í leiknum og setti niður þrjú víti á síðustu fjórtán sekúndum leiksins.

Minnesota vann Chicago, 109-108, í framlengdum leik þar sem Al Jefferson skoraði 39 stig. Þetta var níundi sigur Minnesota í ellefu síðustu leikjum liðsins.

Indiana vann Charlotte, 98-93. Danny Granger var með 27 stig og þeir TJ Ford og Mike Dunleavy þrettán stig hvor.

Denver vann Utah, 117-97. Nene var með 28 stig fyrir Denver.

Golden State vann LA Clippers, 107-92, þar sem Corey Maggette skoraði 20 stig fyrir Golden State gegn sínu gamla félagi.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×