Körfubolti

NBA í nótt: San Antonio í vandræðum með Golden State

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Mason í leiknum í nótt.
Roger Mason í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

San Antonio vann nauman sigur á Golden State, 107-106, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Fyrir þennan leik hafði San Antonio tapað tveimur leikjum í röð á síðustu mínútunni og því var leikmönnum liðsins mikið í mun að leyfa því ekki að gerast aftur nú.

Það var Roger Mason sem tryggði San Antonio sigurinn með körfu þegar 23 sekúndur voru til leiksloka.

Monta Ellis fékk boltann í næstu sókn en skot hans geigaði. Kurt Thomas náði frákastinu og var strax brotið á honum. Þarna voru fimm sekúndur til leiksloka.

Thomas misnotaði hins vegar bæði vítaskotin sín og Golden State fékk þá annað tækifæri til að knýja fram sigur. Ellis fékk aftur boltann og reyndi þriggja stiga skot sem geigaði líka.

Tony Parker var með 30 stig fyrir San Antonio sem er í öðru sæti Vesturdeildarinnar eftir sigurinn, þó langt á eftir LA Lakers sem er á toppnum. Mason var með 24 stig og Tim Duncan 21, þar af þrettán í fjórða leikhluta.

Golden State á ekki lengur möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Ellis var stigahæstur í liðinu með 27 stig og Stephen Jackson kom næstur með átján.

LA Lakers vann Oklahoma City, 107-89, þó svo að enginn byrjunarliðsmaður hafi spilað með liðinu síðustu átta mínútur leiksins. Kobe Bryant skoraði nítján stig í leiknum en hann hvíldi allan fjórða leikhlutann. Lamar Odom var með átján stig og Pau Gasol fjórtán stig, fjórtán fráköst og sjö stoðsendingar.

Chicago vann Detroit, 99-91. Kirk Hinrich skoraði 24 stig fyrir Chicago sem var án Derrick Rose sem á við meiðsli að stríða.

Utah vann Houston, 99-86. Ronnie Brewer var með sautján stig í leiknum, þar af tólf í síðari hálfleik. Houston hafði unnið fjóra leiki í röð fyrir tapið í nótt.

Staðan í deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×