Körfubolti

O´Neal og Marion skipta um heimilisfang

Jermaine O´Neal og Shawn Marion.
Jermaine O´Neal og Shawn Marion. NordicPhotos/GettyImages

Nú eru aðeins sex dagar þar til félagaskiptaglugginn í NBA deildinni lokast og nú í kvöld bárust fréttir af því að Toronto og Miami hefðu skipt á leikmönnum.

Stóru nöfnin í skiptunum eru tveir fyrrum stjörnuleikmenn, sem skipta munu um heimilisfang nú um stjörnuhelgina í NBA deildinni.

Toronto mun þannig senda kraftframherjann Jermaine O´Neal til Miami Heat ásamt framherjanum Jamario Moon og fær í staðinn framherjann Shawn Marion og bakvörðinn Marcus Banks.

Þetta kom fram í nokkrum fjölmiðlum í Bandaríkjunum nú síðdegis, en skiptin bíða formlegs samþykkis frá forráðamönnum deildarinnar.

Jermaine O´Neal hefur þrisvar verið valinn í stjörnuliðið en hann spilaði aðeins hluta úr tímabili með Kanadaliðinu. Tími hans þar var varðaður meiðslum eins og síðustu ár hjá kappanum, en hann var áður hjá Indiana Pacers. O´Neal er með 13,7 stig og 7 fráköst að meðaltali í 40 leikjum með Toronto í vetur.

Shawn Marion hefur fjórum sinnum verið valinn í stjörnulið og lék lengst af með Phoenix Suns. Hann hefur skorað 12 stig og hirti 9 fráköst að meðaltali með Miami í vetur á sínu 10. ári. Hann fær 18 milljónir dollara í laun á árinu sem er hans síðasta á samningnum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×