Körfubolti

San Antonio færði Clippers níunda tapið í röð

Tony Parker skoraði 19 stig fyrir Spurs
Tony Parker skoraði 19 stig fyrir Spurs AP

Tveir leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í körfubolta í nótt. San Antonio vann 106-84 sigur á LA Clippers þar sem liðið stakk af í síðari hálfleik eftir að sá fyrri hafði verið jafn.

Tony Parker var stigahæstur í jöfnu liði Spurs með 19 stig, Roger Mason skoraði 18 og Michael Finley 15. Tim Duncan skoraði aðeins 8 stig í leiknum en var með 9 stoðsendingar.

Al Thornton og Eric Gordon skoruðu 21 stig hvor fyrr Clippers og Mardy Collins 16, en hann leysir meiddan Baron Davis af í byrjunarliðinu. Þetta var níunda tap Clippers í röð og hefur liðið aðeins unnið 8 leiki og tapað 27.

Dallas vann New York heima 99-94 og hefur nú unnið níu af síðustu viðureignum liðanna í Texas.

Dallas náði að sigra þrátt fyrir að Dirk Nowitzki næði sér aldrei á strik í leiknum og skoraði aðeins 10 stig. Þetta var aðeins í fimmta sinn á síðustu fimm árum sem hann skorar 10 stig eða minna, en hann var reyndar með 7 fráköst og 7 stoðsendingar.

Josh Howard var stigahæstur hjá Dallas með 19 stig og Jason Kidd 16, en hjá New York var Chris Duhon með 24 stig og Wilson Chandler með 20. Eddy Curry kom við sögu í þrjár mínútur hjá New York og var þetta fyrsti leikur hans í vetur með liðinu. New York hefur tapað níu af síðustu ellefu leikjum sínum.

Í kvöld verður fjöldi leikja á dagskrá í NBA og rétt er að minna áhugafólk um NBA boltann á beina útsendingu á Stöð 2 Sport frá stórleik Cleveland og Boston klukkan eitt í nótt.

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×