Körfubolti

Eigandi Dallas hótar að losa sig við leikmenn

Mark Cuban er vanur að láta í sér heyra ef hann er ósáttur við leik sinna manna
Mark Cuban er vanur að láta í sér heyra ef hann er ósáttur við leik sinna manna Nordic Photos/Getty Images

Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks í NBA deildinni, lét leikmenn liðsins heyra það í blaðaviðtölum eftir að Dallas tapaði fyrir einu af lélegustu liðum deildarinnar á dögunum.

Dallas lenti mest 23 stigum undir í tapleik á móti Oklahoma City á dögunum þar sem slakt lið Oklahoma var í þokkabót án tveggja bestu leikmanna sinna.

Cuban segir eðlilegt að lið eigi slæma daga, en hann segist merkja það að leikmenn Dallas séu ekki að leggja sig fram. Það er eitthvað sem hinn litríki eigandi getur ekki sætt sig við.

"Ég reyni að minna mig á að þetta var bara einn leikur," sagði Cuban í samtali við staðarblöð, en Dallas hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir útreiðina gegn Oklahoma.

"Ég var hinsvegar ósáttur við það hvað menn virtust ekki nenna að leggja sig fram. Ef hver einasti leikmaður í liðinu gettur ekki fundið það hjá sjálfum sér að leggja sig allan fram í hverjum leik, sé ég ekki að sá hinn sami verði hjá okkur á næstu leiktíð. Boltinn rúllar ekki alltaf fyrir menn, en þeir geta lagt sig fram á hverjum degi. Mér er alveg sama hvernig samninga menn eru með, ég get ekki boðið stuðningsmönnum liðsins upp á annað eins og í gærkvöldi," sagði Cuban daginn eftir leik.

Dallas hefur unnið 6 leiki og tapað 13 á móti liðunum sem keppast um sæti í úrslitakeppninni í Vesturdeildinni og hangir naumlega í áttunda og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppni.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×