Körfubolti

NBA í nótt: Lakers tapaði á flautukörfu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Troy Murphy í baráttu við Trevor Ariza í leiknum í nótt.
Troy Murphy í baráttu við Trevor Ariza í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

LA Lakers tapaði í nótt sínum fyrsta leik á útivelli á tímabilinu er liðið tapaði fyrir Indiana Pacers, 118-117, en sigurkarfan kom á síðustu sekúndu leiksins.

Það var Troy Murphy sem var hetja Indiana en hann gerði sér lítið fyrir og náði sóknarfrákasti á lokasekúndu leiksins og náði að setja niður sigurkörfuna áður en leiknum lauk.

Lakers hafði aðeins tapað einum leik á tímabilinu fyrir gærkvöldið og unnið síðustu sjö leiki sína. Þar að auki hafði liðið unnið alla fimm útileiki sína til þessa.

Lakers náði 17-0 spretti í lok þriðja leikhluta og komst þá í fimmtán stiga forystu. En Murphy og Danny Granger sáu til þess að Indiana náði að koma sér aftur á strik í fjórða leikhluta og vinna ævintýralegan sigur í lokin.

Kobe Bryant var stigahæstur hjá Lakers með 28 stig. Pau Gasol kom næstur með 20 stig og níu fráköst.

Hjá Indana var Granger atkvæðamestur með 32 stig og TJ Ford kom næstur með 21 stig. Þeir Murphy, Radoslav Nesterovic og Marquis Daniels skoruðu allir sextán stig. Murphy var með sautján fráköst og Nesterovic tíu.

Denver vann Toronto, 132-93. Chauncey Billups var með 24 stig og fjórtán stoðsendingar og Carmelo Anthony var með 23 stig. Denver hefur þar með unnið þrettán af nítján fyrstu leikjum sínum á tímabilinu sem er metjöfnun hjá félaginu.

Washington vann New Jersey, 108-88. Caron Butler var með 22 stig og tíu stoðsendingar og DeShawn Stevensen 21 fyrir Washington. Þetta var fyrsti sigur liðsins gegn öðru liði í Austurdeildinni eftir ellefu töp í röð. Þetta var einnig fyrsti útisigur Washington á tímabilinu.

Portland vann New York, 104-97. Brandon Roy var með 23 stig fyrir Portland sem hafði mikla yfirburði í fjórða leikhluta og vann þar með sinn fimmta sigur í röð.

Philadelphia vann Chicago, 103-95, í framlengdum leik. Andre Miller skoraði 28 stig í leiknum, þar af níu í framlengingunni. Philadelphia batt þar með enda á fjögurra leikja taphrinu.

Dallas vann Clippers, 100-98. Jose Barea setti niður þriggja stiga körfu á lokamínútu leiksins sem reyndist sigurkarfa leiksins. Dirk Nowitzky var stigahæstur hjá Dallas með 29 stig.

Detroit vann San Antonio, 89-77. Rasheed Wallace skoraði nítján stig fyrir Detroit sem var á kafla tíu stigum undir í leiknum. Manu Ginobili var í byrjunarliði San Antonio í fyrsta sinn eftir langvinn meiðsli.

Utah vann Sacramento, 99-94. Kyle Korver var með fimmtán stig fyrir Utah en það var Deron Williams sem skoraði tvær lykilkörfur á síðustu mínútunni sem tryggði Utah sigur í leiknum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×