Körfubolti

Kobe Bryant þarf í uppskurð

Kobe Bryant
Kobe Bryant Nordic Photos / Getty Images

Stjörnuleikmaðurinn Kobe Bryant hjá LA Lakers hefur átt við meiðsli að stríða á fingri undanfarna daga og nú er komið í ljós að hann þarf í uppskurð vegna þessa.

Hann þarf í það minnsta sex vikur til að jafna sig eftir uppskurðinn og því hefur hann tilkynnt að hann ætli að fresta uppskurðinum þangað til eftir Ólympíuleikana í Kína í sumar.

Bryant er mikill keppnismaður og ætlar ekki að taka þá áhættu að missa úr sex vikur á keppnistímabilinu í NBA, en þar er Lakers liðið nú í bullandi toppbaráttu og bindur miklar vonir við úrslitakeppnina - ekki síst eftir að Spánverjinn Pau Gasol gekk í raðir liðsins.

"Ég ætla að reyna að hvíla puttann eins mikið og ég get á næstu dögum og vona að ég geti spilað með þessi meiðsli áfram eftir það. Ég vil helst ekki missa úr leiki með Lakers og síðar landsliðinu og því munum við halda áfram að eiga við þessi meiðsli dag frá degi," sagði Kobe Bryant í yfirlýsingu sem birtist í LA Times.

Bryant átti að vera í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í stjörnuleiknum á sunnudaginn, en talið er líklegt að hann muni sleppa leiknum til að hvíla fingurinn.

Ekki er víst að NBA deildin veiti Bryant leyfi til að sleppa leiknum, því enn er ekki búið að nefna mann í stjörnuliðið í hans stað. Vonir standa þó til að hann verði afsakaður frá leiknum þar sem formlega hefur verið tilkynnt að hann sé meiddur.

Bryant skorar að meðaltali 28 stig í leik, hirðir 6 fráköst og gefur rúmar 5 stoðsendingar. Lið Lakers hefur unnið 35 leiki í deildinni og tapað aðeins 17 og lauk í gær níu leikja útivallarispu þar sem liðið vann sjö þeirra.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×