Körfubolti

Gasol er enn í losti

Nordic Photos / Getty Images

Spænski framherjinn Pau Gasol spilar væntanlega sinn fyrsta leik fyrir LA Lakers klukkan 17 í dag þegar liðið sækir Washington heim í NBA deildinni. Leikurinn er í beinni útsendingu á NBA TV.

Gasol stóðst læknisskoðun hjá Lakers í gærkvöldi og ætti því að vera klár í slaginn. Hann er enn ekki búinn að jafna sig á því að hafa nokkuð óvænt verið skipt frá liði Memphis.

"Þetta er ekki auðvelt að melta. Ég var búinn að vera sjö ár hjá félaginu en allt í einu er maður bara í flugvél á leið til annars liðs. Þetta er ákveðið áfall," sagði Gasol.

Stuðningsmenn Memphis voru orðnir leiðir á því að vinna ekki eina einustu seríu í úrslitakeppni og voru margir hverjir farnir að baula á Spánverjann þrátt fyrir að hann skilaði yfirleitt ágætri tölfræði.

Gasol kemur til með að hjálpa liði Lakers mikið, ekki síst í fjarveru miðherjans efnilega Andrew Bynum, sem er meiddur. Phil Jackson þjálfari Lakers er í það minnsta bjartsýnn.

"Við þurfum einhvern sem gefur okkur ógn í teignum í sókninni og Gasol gefur okkur það strax. Hann er líka ágætur sendingamaður og það fellur okkur vel í geð," sagði Jackson.

Þau Gasol hafi fengið áfall við tíðindin, telur hann sig geta hjálpað Lakers. "Ég hlakka til við að takast á við þetta, en satt best að segja átti ég ekki von á þessu. Ég hélt að ég yrði í Memphis þar sem við ætluðum okkur stóra hluti og vorum að stefna í rétta átt," sagði Spánverjinn hárprúði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×