Körfubolti

Pau Gasol til LA Lakers

Pau Gasol er á leið til Hollywood
Pau Gasol er á leið til Hollywood Nordic Photos / Getty Images

Spænski landsliðsmaðurinn Pau Gasol hjá Memphis Grizzlies er á leið til LA Lakers í NBA deildinni. Fréttir af þessu bárust bæði frá Memphis og Los Angeles nú rétt í þessu.

Memphis liðið fær í staðinn miðherjann Kwame Brown, leikstjórnandann Javaris Crittenton, samning Aaron McKie (sem er hættur) og valrétti í nýliðavalinu á þessu ári og árið 2010.

Brown hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum allan feril sinn í deildinni, en verðmæti hans í þessum viðskiptum felst fyrst og fremst í því að samningur hans er að renna út.

Pau Gasol hefur verið hjá Memphis allan sinn feril eftir að félagið, sem þá var reyndar staðsett í Vancouver, tók hann númer þrjú í nýliðavalinu árið 2001.

Gasol var með um 21 stig og tæp 10 fráköst að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en hefur verið með öllu lakari tölfræði í vetur.

Lið Memphis hefur líka verið afleitt og spilað langt undir væntingum. Því virðist sem forráðamenn félagsins hafi tekið þá ákvörðun að byrja upp á nýtt - án fyrrum aðalstjörnu sinnar.

Lakers-liðið er þarna að fá stórt púsl í viðleitni sinni til að byggja upp meistaralið á ný í kring um Kobe Bryant og gaman verður að sjá hvernig það tekst til.

Segðu þína skoðun á fréttinni hér.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×