Körfubolti

Michael Jordan æfir með Bobcats

Jordan leiddist þófið á skrifstofunni og mætti á æfingu
Jordan leiddist þófið á skrifstofunni og mætti á æfingu NordicPhotos/GettyImages

Körfuboltagoðsögnin Michael Jordan er nú búinn að taka fram skóna að nýju og æfir á fullu með liði Charlotte Bobcats í NBA deildinni. Jordan er í stjórn félagsins og ákvað að reyna að efla andann í liðinu með uppátæki sínu, en liðinu hefur gengið afleitlega á síðustu vikum.

Bobcats byrjaði ágætlega í deildinni í haust en síðan hefur heldur hallað undan fæti. Jordan, sem er 44 ára gamall, ítrekaði í samtali við blaðamenn að þetta uppátæki væri ekki hugsað sem enn ein endurkoman í NBA deildina, heldur vildi hann aðeins hressa upp á andann í liðinu og koma góðum skilaboðum áleiðis til sinna manna.

"Lið okkar er ekki svo heppið að vera með stórstjörnu í sínum röðum - mann sem getur tekið leiki í sínar hendur á lokasprettinum - og því verða allir að vinna vel saman sem ein heild til að þetta lið rétti úr kútnum. Ég er bara að miðla reynslu minni og reyna að hrista upp í mannskapnum," sagði Jordan í samtali við blaðamenn.

Charlotte vann sex af fyrstu tíu leikjum sínum í haust, en tapaði svo sjö í röð og er í dag með 8 sigra og 14 töp. Liðið er í næstneðsta sæti í Suðausturriðlinum í Austurdeildinni og með sama áframhaldi missir það Miami fram úr sér í töflunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×