Körfubolti

Kidd í verkfalli?

NordicPhotos/GettyImages

Leiksstjórnandinn Jason Kidd hjá New Jersey Nets spilaði ekki með liði sínu þegar það tapaði fyrir grönnum sínum í New York í NBA deildinni í nótt. New York Post heldur því fram að Kidd sé í verkfalli vegna samningadeilna við forráðamenn félagsins.

Kidd hringdi í þjálfarann Lawrence Frank í gær og sagðist vera með mígreni og mætti ekki á leikinn. Einn þjálfara New Jersey sem þjáist reglulega af mígreni var á sínum stað í leiknum þrátt fyrir veikindi - en Kidd hefur enga sögu af slíkum kvillum.

"Hann er í verkfalli," sagði heimildamaður New York Post úr röðum Nets.

Kidd hefur átt í deilum við forráðamenn félagsins undanfarið þar sem hann sækist eftir framlengingu á samningi sínum. Fjölmiðar voru fljótir að túlka atburðarásina sem yfirlýsingu frá Kidd og nú er strax kominn af stað orðrómur um að félagið sé þegar komið í viðræður við LA Lakers, Dallas og Cleveland um að skipta Kidd í burtu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×