Körfubolti

Charlotte býður Varejao samning

Varejao gæti verið á leið til Charlotte
Varejao gæti verið á leið til Charlotte NordicPhotos/GettyImages

Charlotte Hornets hefur boðið brasilíska leikmanninum Anderson Varejao þriggja ára samning upp á ríflega milljarð króna. Varejao er enn samningsbundinn Cleveland en hefur ekki spilað með liðinu í vetur eftir að slitnaði upp úr viðræðum um framlengingu á samningi hans.

Þar sem leikmaðurinn hárprúði er samningsbundinn Cleveland hefur félagið rétt á að gera honum jafn gott eða betra tilboð en Charlotte og því er ekki útséð með það hvort hann slær til.

Hann lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að þolinmæði sín í garð forráðamanna Cleveland væri á þrotum því þeir vildu ekki bjóða sér mannsæmandi samning. Talsmenn félagsins hafa hinsvegar lýst því yfir frá byrjun að vilji sé fyrir því hjá félaginu að fá hann aftur.

Það hefur ekki gerst oft í NBA deildinni á síðustu árum að leikmaður fari í "verkfall" á borð við þetta í samningaviðræðum og óttast sumir að þessar róttæku aðgerðir Varejao og umboðsmanns hans eigi eftir að draga dilk á eftir sér í deildinni í framtíðinni. 

Varejao skoraði 6,8 stig og hirti 6,7 fráköst að meðaltali í leik með Cleveland síðasta vetur en framlag hans til liðsins verður vart lesið út úr tölfræðinni. Hann gegndi veigamiklu hlutverki í liðinu sem náði öllum að óvörum alla leið í lokaúrslitin síðasta sumar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×