Sport

Búist við að Thorpe hætti keppni í sundi

Thorpe er einn besti sundmaður sögunnar.
Thorpe er einn besti sundmaður sögunnar. MYND/Getty Images

Búist er við því að sundmaðurinn Ian Thorpe frá Ástralíu tilkynni um brotthvarf sitt úr íþróttinni á blaðamannafundi sem fram fer á morgun, en þrátlát meiðsli eru svo gott sem búin að binda enda á feril hans.

Hinn fimmfaldi Ólympíumeistari og tífaldi Heimsmeistari hefur ekki keppt á stórmóti frá því á Ólympíuleikunum árið 2004, en alvarleg veikindi og meiðsli hafa hrjáð hann síðustu mánuði. Hann hafði boðað til blaðamannafundar í Sidney á morgun þar sem talið var að hann myndi tilkynna opinberlega að hann gæti ekki tekið þátt á Heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í mars á næsta ári. Orðrómur um að hann hyggist tilkynna um brotthvarf sitt úr sundheiminum hefur hins vegar aukist til muna í dag.

Thorpe hefur áður sagt opinberlega að hann hyggðist freista þess að vinna til gullverðlauna á ÓL í Peking eftir tvö ár og verða þannig fyrsti karlkyns sundmaðurinn sem nær að vinna gull á þremur Ólympíuleikum í röð. Nú þegar það markmið virðist vera úr sjónmáli telja margir að Thorpe kjósi heldur að draga tjöldin fyrir fullt og allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×