Viðskipti erlent

Sögulegur viðskiptahalli í Bandaríkjunum

Viðskiptahallinn í Bandaríkjunum jókst um 5,3 prósent í janúar og nam  68,5 milljörðum dala í mánuðinum, samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti landsins. Þetta er methalli í mánuðinum í sögu Bandaríkjanna en ástæða hans er aukinn innflutningur  á eldsneyti, ökutækjum og vínum auk mikils innflutnings á klæðnaði og farsímum frá Kína.

Sérfræðingar í Bandaríkjunum segja aukinn viðskiptahalla blása gagnrýnendum George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, kapp í kinn en þeir segja að viðskiptasamningar ríkisstjórnarinnar við ríki þar sem laun séu lág hafi orðið til þess að innflutningur hafi aukist á ódýrum varningi með þeim afleiðingum að tæplega þrjár milljónir manna hafi misst vinnu á síðustu árum.

Viðskiptahalli Bandaríkjanna á síðasta ári nam 723,6 milljörðum dala og telja fjármálasérfræðingar að hallinn muni verða enn meiri á þessu ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×