Íslenski boltinn

Stjarnan fyrst íslenskra liða til að vinna þrjá andstæðinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjörnumenn voru að vonum glaðir eftir leikinn í Poznan í kvöld.
Stjörnumenn voru að vonum glaðir eftir leikinn í Poznan í kvöld. Vísir/Adam Jastrzębowski
Stjörnumenn halda áfram að skrá sig í metabækurnar, en í kvöld urðu þeir fyrsta íslenska liðið til að slá þrjá andstæðinga út í Evrópukeppni.

Stjörnumenn tryggðu sér þátttökurétt í Evrópudeildinni eftir að hafa lent 3. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra. Evrópuævintýrið hófst með tveimur leikjum gegn Bangor City frá Wales.

Walesverjarnir reyndust ekki vera mikil fyrirstaða. Stjörnumenn unnu báða leikina 4-0 og viðureignina 8-0 samanlagt.

Í næstu umferð var komið að skoska liðinu Motherwell. Liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum í Skotlandi, þar sem Ólafur Karl Finsen skoraði bæði mörk Stjörnumanna. Staðan að loknum venjulegum leiktíma í Garðabænum var einnig 2-2 og því þurfti að framlengja.

Þar tryggði Atli Jóhannsson Stjönumönnum sigurinn og sæti í þriðju umferð forkeppninnar með glæsilegu marki á 114. mínútu. Stjarnan vann viðureignina gegn Motherwell, 5-4 samanlagt.

Í þriðju umferðinni drógust Stjörnumenn gegn Lech Poznan frá Póllandi. Daninn Rolf Toft tryggði Stjörnunni sigur í fyrri leiknum á Samsung-vellinum með marki á 48. mínútu, en þetta reyndist vera eina markið í viðureign liðanna. Markalaust jafntefli í Póllandi dugði Garðbæingum til að fara áfram.

Íslensk lið höfðu áður náð að slá tvo andstæðinga út, en Stjörnumenn bættu um betur í kvöld og skrifuðu nýjan kafla í knattspyrnusögu Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×