Upp­gjörið: Grótta - Haukar 21-31 | Haukar munu etja keppi við Fram í úr­slitum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að marki Gróttu í leiknum. 
Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að marki Gróttu í leiknum.  Vísir/Vilhelm

Haukar munu mæta Fram í úrslitaleik Powerade-bikars kvenna í handbolta. Þetta varð ljóst eftir sigur Haukaliðsins gegn Gróttu í undanúrslitum keppninnar að Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.

Haukar eru í öðru til þriðja sæti Olís-deildarinnar en Gróttukonur sitja á botni deildarinnar. Fyrirfram var því búist við sannfærandi sigri Haukaliðsins og sú varð að lokum raunin.

Grótta beit frá sér framan af leik en munurinn á liðunum kom svo í ljós þegar líða tók á leikinn og niðurstaðan þægilegur sigur Haukaliðsins.

Haukar voru þó með þriggja til fjögurra marka forskot lungann úr fyrri hálfleiknum en í hálfleik leiddi Haukaliðið með þremur mörkum, 12-9.

Haukar settu svo upp um einn gír eða jafnvel tvo í upphafi seinni hálfleiks og jók muninn hægt og bítandi upp í tíu mörk, 20-10, og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Lokatölur í leiknum urðu 31-21 Haukum í vil. 

Atvik leiksins

Stjörnur og skúrkar

Einu sinni sem oftar var Elín Klara Þorkelsdóttir í broddi fylkingar hjá Haukaliðinu en hún skoraði níu mörk og var markahæst. Inga Dís Jóhannsdóttir spilaði einungis seinni hálfleikinn og skoraði sex mörk á þeim hálftíma sem hún fékk á parketinu. 

Markmenn beggja liða vörðu svo vel en Sara Sif Helgadóttir varði 13 skot hjá Haukum og Anna Karólína Ingadóttir níu hjá Gróttu. Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir var öflugust í sóknarleik Gróttuliðsins í opnu spili. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins þeir, Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson, voru síður en svo í sviðsljósinu í þessum leik og það er til marks um það að dómarar eigi góðan leik þegar lítið ber á þeim. Fyrir störf sín fá þeir kumpánar átta í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Bæði lið voru rækilega studd af stuðningsmönnum sínum sem settu skemmtilegan brag á þennan leik. Þegar sigurinn var í höfn var konfettí og tilheyrandi fögnuður hjá Haukamönnum sem fögnuðu sigrinum vel og innilega að leik loknum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira