Sport

Rúlluðu upp Íslandsmeisturunum

Kvennalið Grindavíkur lofar vissulega góðu fyrir veturinn en liðið hefur fengið til sín tvo mjög sterka leikmenn, endurheimt tvær uppaldar stelpur og æft gríðarlega vel undir stjórn nýja þjálfara síns Unndórs Sigurðssonar. Nú síðast vann Grindavík Íslandsmeistaralið Keflavíkur með 24 stiga mun, 70-46, í æfingaleik í Grindavík. Grindavík hefur fengið til liðs við sig bandaríska miðherjann Jerricu Watson og landsbakvörðinn Hildi Sigurðardóttur og þá hafa þær Petrúnella Skúladóttir og Erna Rún Magnúsdóttir snúið aftur á heimaslóðir eftir hálfs árs dvöl í Njarðvík (Petrúnella) og ÍS (Erna Rún). Grindavík endaði í 2. sæti á bæði Íslandsmóti og í bikarkeppni á síðustu leiktíð en nú lítur út fyrir að þær komi enn sterkari til leiks í ár og reyni að ná Íslandsmeistaratitlinum af Keflavík og bikarmeistaratitlinum af Haukum. Fjallað er um æfingaleikinn við Keflavík á heimasíðu Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. Þar segir í frásögn af leiknum. "Á fimmtudagskvöldið rúlluðu stelpurnar Íslandsmeisturum Keflavíkur upp í Keflavík.  Lokatölur urðu 46-70.  Jerica Watson var stigahæst okkar leikmanna með 25 stig, Hildur Sig skoraði 17 og Svandís skoraði 12 og tók aragrúa frákasta.  Íris, Lilja og Erna stóðu einnig upp úr en að sögn Unndórs þjálfara var þetta góður sigur liðsheildarinnar.  Þótt vissulega sé um glæsileg úrslit að ræða ber að hafa í huga að Keflavík var ekki með sinn erlenda leikmann en vissulega lofar veturinn góðu hjá okkar liði," segir á heimasíðunni en ekkert segir frá frammistöðu Íslandsmeistaranna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×